Undirbúningur fyrir æðahnútaaðgerð
Vertu fastandi frá miðnætti fyrir æðahnútaaðgerð nema um annað hafi verið rætt. Þú mátt drekka tæra drykki allt að tveim tímum fyrir æðahnútaaðgerð. Ekki reykja aðgerðardag. Farðu í sturtu að morgni og þvoðu þér með venjulegri sápu. Ekki nota krem á fætur. Ágætt er að kaupa teygjusokk upp að hné fyrir æðahnútaaðgerð. Ekki er þörf á að taka teygjusokkinn með aðgerðardag þar sem hann er ekki notaður fyrr en umbúðir eru farnar af eftir tvo sólarhringa. Þú færð umbúðir á fætur eftir æðahnútaaðgerð sem eru nokkuð fyrirferðarmiklar. Því er gott að vera í mjúkum, víðum buxum og vera í skóm sem eru rúmir og létt er að fara í og úr.
Fyrir Æðahnútaaðgerð
Þú tekur verkjatöflu (paracetamól 1.5 grömm) áður en þú leggur af stað að heiman. Ef það gleymist færðu töflurnar hjá okkur. Þú færð einnig róandi lyf og verkjalyf í aðgerð og getur þess vegna ekki keyrt bíl aðgerðardaginn. Þú skiptir um föt og færð góðan hægindastól til hvildar fyrir aðgerð.
Á skurðstofu vegna æðahnúta

Allir æðahnútar og æðaslit eru merktir með tússpenna og gerð er ómskoðun. Á meðan aðgerð er framkvæmd er lögð staðdeyfing sem þú finnur eins og smá nálarstungur. Það tekur stuttan tíma að leggja deyfinguna (3 til 5 mínútur) og eftir það áttu ekki að finna fyrir neinum verkjum. Það er gott ef þú lætur vita ef þú þrátt fyrir allt finnur til, alltaf er hægt að bæta á staðdeyfingu.
Aðgerðin tekur um einn til tvo tíma og fer það eftir því hvað mikið þarf að gera. Eftir aðgerð eru lagðar á umbúðir sem eru vafðar á fremur fast. Þessar umbúðir eru hafðar á í 48 tíma eftir aðgerð. Hálftíma til klukkutíma eftir aðgerð ferð þú svo aftur heim en áður færð þú léttan málsverð.
Lasermeðferð við æðahnútum

Bláæðasetrið notast við laser af nýjustu gerð (ELVeS Radial 2ring™) sem er alþjóðlega viðurkenndur sem einn af þeim bestu og komin er mikil reynsla af notkun hans. Æðahnútaðgerðin er gerð í staðdeyfingu og ekki er þörf á svæfingu þegar aðgerð er framkvæmd á þennan hátt. Aðgerðin er framkvæmd í ómskoðun. Um er að ræða innæðaaðgerð sem þýðir að ekki er opnað inn á æðina á venjulegan hátt heldur er hún meðhöndluð í staðinn með laserþræðinum sem færður er inn í bláæðina og staðsettur þannig að einungis sá hluti æðarinnar sem er bilaður er meðhöndlaður. Æðinni er lokað með þessari tækni og er hún ekki sjáanleg lengur með ómskoðun að nokkrum mánuðum liðnum. Engir skurðir eru gerðir og ekkert er saumað.
Heklunálsmeðferð við æðahnútum

Æðahnútarnir eru fjarlægðir að lokinni laser meðferð. Gert er nálargat (1.0-1.2 mm) í húðina og æðahnútar eru veiddir upp með áhaldi sem líkist heklunál. Mjög lítil eða engin ör verða sjáanleg og útlitslega er því árangur mjög góður.
Eftir æðahnútaaðgerð
Ef þú hefur einhver einkenni sem þér finnst óvenjuleg eftir æðahnútaaðgerð þá hefur þú samband. Tveim vikum eftir æðahnútaaðgerð getur þú fundið fyrir smávægilegum verkjum á þeim stað þar sem laser meðferðin var gerð. Það er ekkert hættulegt og nægir að taka verkjatöflu ef á þarf að halda. Smá bólgur í húð kringum götin eru algeng, þau hverfa eftir nokkra daga. Mar í húð þar sem æðahnútar voru hverfa á nokkrum dögum eða vikum.
Eftir æðahnútaaðgerð er mikilvægt að leggjast ekki bara fyrir þegar heim er komið. Ágætt að fara í smá göngutúr heima við. Blóðtappi eftir æðahnútaaðgerð er mjög sjaldgæfur. Með því að vera á hreyfingu minnkar þú líkurnar á blóðtappa. Einkenni blóðtappa geta verið skyndilegur verkur í kálfa sem þú upplifir sem spenntur og heitur.
Umbúðir eru fjarlægðar 48 tímum eftir æðahnútaaðgerð. Best er að fara í sturtu og fjarlægja allar umbúðir í sturtunni. Þerra síðan húðina og fara í teygjusokkinn. Nota á teygjusokkinn næstu tvær vikur að degi til (í lagi að nota hann lengur). Ekki er óalgengt að smávegis vökvi komi frá litlu götunum. Ef það gerist má setja plástur á þá staði. Þar sem æðahnútar hafa verið fjarlægðir verða smá holur og mar. Þessi smáu göt geta verið sýnileg í einhverja mánuði eftir aðgerð.
Þú mátt fara í vinnu eins fljótt og þú treystir þér til. Flestir eru komnir til vinnu aftur eftir einn til þrjá daga.
Þú mátt fara að æfa eftir að umbúðir eru farnar en muna eftir að nota teygjusokkinn fyrstu tvær vikurnar. Ekki fara í sund eða nota baðkar fyrstu tvær vikur eftir aðgerð. Verkir eftir aðgerð eru sjaldgæfir og sjaldan er þörf á verkjalyfjum.
Ef þú þrátt fyrir allt ert með verki er gott að taka venjulegar verkjatöflur t.d paracetamol 500 mg, tvær töflur þrisvar á dag.
Yfirleitt er endurkoma áætluð eftir aðgerð eftir sex til átta vikur. Stundum er þó ekki þörf á endurkomu.